Innlent

Lokaðist inni á milli tveggja flóða úr Óshlíð

Frá Óshlíð. Úr myndasafni.
Frá Óshlíð. Úr myndasafni. MYND/Brynjar Gauti

Ökumaður bíls lokaðist inni á milli tveggja flóða sem féllu á veginn um Óshlíð um hádegisbil. Að sögn lögreglunnar á Ísafiði varð honum ekki meint af og er hann nú kominn til Bolungarvíkur.

Veginum á Óshlíð hefur verið lokað og óvíst er hvenær hann verður opnaður aftur. Þá var veginum um Súðavíkurhllíð lokað nú í hádeginu eftir að snjóflóð féll þar á veginn. Snjóflóðahættuna má rekja til snjókomunnar síðustu daga og snöggrar hlýnunar í dag. „Það er búin að vera snjósveifla og svo blotnar í þessu og þá fer það af stað," sagði lögreglumaður á Ísafirði sem Vísir ræddi við.

Þá kemur fram í tilkynningu Vegagerðarinnar að spáð sé vonskuveðri seinna í dag og í nótt. Úrkoman verði þónokkur, sérstaklega sunnanlands, en það muni hríða um stund á flestum fjallvegum áður en það nær að blotna. Fólk er beðið um að sýna aðgát og athuga með veður áður en lagt er af stað í ferðir.

Enn er ófært um Hellisheiði en hálka er í Þrengslunum. Flughálka er frá Hvammi undir Eyjafjöllum að Vík. Á Vesturlandi er skafrenningur og hálka á Holtavörðuheiði. Ófært er um Bröttubrekku og stórhríð. Á Snæfellsnesi er snjóþekja og éljagangur á Vatnaleið en snjóþekja og skafrenningur á Fróðárheiði. Ófært er á Skógarströnd en unnið er að mokstri. Þæfingsfærð og flughálka er í uppsveitum Borgarfjarðar.

Á Norðurlandi er hálka eða snjóþekja á öllum leiðum ásamt skafrenningi á stöku stað. Hálka og skafrenningur er á Öxnadalsheiði. Lágheiði er ófær. Á Norðaustur- og Austurlandi er hálka eða hálkublettir. Öxi og Breiðdalsheiði eru ófær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×