Innlent

Heimdallur ályktar til stuðnings Sollu

Stjórn Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, samþykkti í dag ályktun þar sem tekið er undir hugmyndir Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um lækkun innflutningstolla neytendum til hagsbóta.

Ályktunin er svohljóðandi:

Heimdallur tekur heilshugar undir hugmyndir utanríkisráðherra, þess efnis að lækka beri innflutningstolla á matvæli, en farsælast sé þó að afnema þá að fullu.

Íslendingar búa við eitt hæsta matvælaverð í heimi sem ríkisvaldið stuðlar óbeint að með innflutningshöftum og verndarstefnu í formi tolla og vörugjalda. Innflutningshöft af þessu tagi eru óforsvaranleg og kosta neytendur gríðarlega fjármuni sem þeir greiða í formi hærra vöruverðs. Frjáls viðskipti eru grundvöllur áframhaldandi hagsældar og forsenda efnahagslegra framfara á Íslandi.

Ungir sjálfstæðismenn í Reykjavík hvetja fulltrúa Sjálfstæðisflokksins á alþingi, og sér í lagi landbúnaðarráðherra, Einar Kristin Guðfinnsson, að fylgja stefnu Sjálfstæðisflokksins um að minnka tollavernd og stefna að því almenn markaðslögmál gildi í landbúnaði eins og skýrt kom fram á síðasta landsfundi Sjálfstæðiflokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×