Innlent

Veita verulegan afslátt á eldsneyti í dag

Olíufélagið N1, sem áður hét Essó, veitir ríflegan afslátt af bensíni og dísilolíu í dag. Félagið segist vera að rifja upp verðið sem var fyrir ári áður en hækkunarskriðan fór af stað.

Félagið auglýsir að það veiti 25 króna afslátt af lítranum en við athugun fréttastofunnar kom í ljós að afslátturinn er miðaður við verð fyrir fulla þjónustu.

Meirihluti bíleigenda kaupir bensín hins vegar í sjálfsafgreiðsu og þá er afslátturinn 20 krónur en ekki 25. Við enn frekari athugun kom í ljós að á Egó-stöðvunum, sem er í eigu N1, er bensínlítrinn tæpum 18 kónum ódýrari í dag en hjá Orkunni og ÓB en fyrir afsláttinn í dag var hann álíka dýr og hjá hjá Orkunni og ÓB. Þar er afslátturinn því nær að vera 18 krónur en ekki 25.

En hvað sem því líður er afslátturinn ríflegur og hafa margir notfært sér hann í dag. Í tilkynningu frá félaginu er bent á að bensín hafi hækkað um tæp 40 prósent á einu ári og dísilolían um 60 prósent auk þess sem gengi bandaríkjadollara hafi hækkað um 15 prósent.

Þessar stöðugu hækkanir og ójafnvægi krónunnar séu félaginu ekki til hagsbóta og því deili það áhyggjum með almenningi, atvinnubílstjórum og atvinnulífinu á háu eldsneytisverði og lágu gengi krónunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×