Innlent

DV gleypti við aprílgabbi Víkurfrétta

Fréttamiðillinn Víkurfréttir bauð upp á aprílgabb í gær eins og aðrir fjölmiðlar. Þar á bæ kættust menn væntanlega þegar þeir opnuðu DV í morgun og sáu að blaðið hafði kokgleypt gabbið.

„Það verður hlegið að einhverjum á ritstjórn DV í dag, því blaðið kokgleypti annað af tveimur „aprílgöbbum" Víkurfrétta sem fjallaði um að umhverfisráðherra hefði fellt úrskurði álverinu í Helguvík í vil og skrifað yrði undir samninga um línulagnir síðdegis í gær, 1. apríl, þar sem almenningi var boðið að vera viðstaddur," segir á vef Víkurfrétta. „Hefðu verið mikil tímamót á Suðurnesjum ef satt væri, en fréttin var hreinn uppspuni frá upphafi til enda."

„DV sá hins vegar ástæðu til að birta frétt um málið á einni af fremstu fréttasíðum blaðsins í dag," segja Víkurfréttir og bæta því við að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem þeim tekst að láta DV hlaupa apríl. „Árið 2005 sagði DV frá nýjung Sparisjóðsins í Keflavík, þar sem viðskiptavinir spiluðu bingó eftir nýju númerakerfi, sem þá hafði verið sett upp í afgreiðslu Sparisjóðsins í Keflavík. Víkurfréttir höfðu gert 1. aprílfrétt um málið, en daginn eftir kom frétt um bingóið í DV, eins og um dagsanna frétt væri að ræða."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×