Innlent

Tryggðu sér stórt lán með mjög lágu skuldatryggingaálagi

MYND/E.Ól

Hafnarfjarðarbær hefur tryggt sér um það bil þriggja milljarða króna lán hjá írskum banka vegna framkvæmda í sveitarfélaginu sem er með 75 punkta skuldatrygginaálag á evrum og 85 punka álag á kanadadal. Það er margfalt minna en skuldatryggingaálag bankanna um þessar mundir.

Hafnarfjarðarbær stendur fyrir miklum framkvæmdum á 100 ára afmæli bæjarins í ár og verða framkvæmdir fyrir um sjö milljarða. Á fundi bæjarstjórnar í dag var tekin fyrir þriggja ára fjárhagsáætlun bæjarins og í tengslum við framkvæmdirnar leitaði bærinn tilboða hjá innlendum og erlendum fjármálastofnunum í lánsfjármögnun.

Samkomulag náðist við hinn írska Depfa Bank um 25 milljóna evra, jafnvirði nærri þriggja milljarða króna, lán til þriggja ára, en bæjarfélagið hefur skipt við bankann nokkrum sinnum áður. Er lánið tekið til að fjármagna þær framkvæmdir sem fram koma í fjárhagsáætlun 2008-2011. Samþykkt var á bæjarstjórnarfundi að ráðast í lántökuna.

Í minnisblaði fjármálastjóra Hafnarfjarðarbæjar segir að að teknu tilliti til núverandi markaðsaðstæðna og fyrirhugaðrar sölu á eignum bæjarins hafi þótt ráðlegra að semja ekki við lánveitanda til langs tíma og í því ljósi sé óhætt að fullyrða að tilboð Depfa Bank sé afar hagstætt. Um er að ræða þriggja ára fjölmynta veltiláni með tiltölulega lágu skuldatryggingaálagi eða frá 75 punktum á evrum og upp í 85 punkta á kanadadal.

Skuldatrygginaálag hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu í tengslum við lausafjárkreppu á alþjóðamörkuðum. Álagið er almennt talið vera einn besti mælikvarðinn á þau markaðskjör sem aðilar standa frammi fyrir á alþjóðlegum skuldabréfamörkuðunum. Til samanburðar er skuldatryggingaálag Glitnis nú 1002 punktar, Kaupþings 990 og Landsbankans 841 punktur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×