Innlent

Málþing um íslenska tungu í fjölmiðlum

Steinunn Stefánsdóttir.
Steinunn Stefánsdóttir.

„Íslenskan er atvinnutæki íslensks fjölmiðlafólks," segir Steinunn Stefánsdóttir, aðstoðarritstjóri og nefndarmanneskja Íslenskrar málnefndar, í spjalli við Vísi um málþing föstudagsins sem að þessu sinni fjallar um stöðu íslenskrar tungu í fjölmiðlum og er haldið í samvinnu við Blaðamannafélag Íslands.

„Efni í fjölmiðlum er það eina sem margir lesa yfir daginn og gegna þeir því að mörgu leyti lykilhlutverki fyrir framtíð tungumálsins," segir Steinunn og bendir á að þótt ýmis mál séu að jafnaði í brennidepli í fjölmiðlum sé tungumálið yfirleitt ekki þar á meðal þó að það beri engu að síður umfjöllunina uppi.

Málþingið verður haldið á Hótel Holti og flytur ýmist gamalreynt fjölmiðlafólk framsöguerindi þar. Auk Steinunnar taka til máls Svanhildur Hólm Valsdóttir, ritstjóri Íslands í dag, Þröstur Helgason, ritstjórnarfulltrúi á Lesbók Morgunblaðsins, Silja Aðalsteinsdóttir, ritstjóri Tímarits Máls og menningar, og Aðalsteinn Davíðsson cand. mag. Málþingið er öllum opið og hefst kl. 16 á föstudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×