Innlent

Vilja hækkun bóta um allt að 18 þúsund krónur

Alþýðusamband Íslands, Öryrkjabandalag Íslands og Landssamband eldri borgara mótmæla harðlega þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hækka elli- og örorkulífeyri um einungis fjögur til fimm þúsund krónur að loknum nýgerðum kjarasamningum.

Í sameiginlegri tilkynningu frá þessum þremur samtökum segir að megin markmið verkalýðshreyfingarinnar í kjarasamningunum hafi verið að bæta kjör þeirra verst settu í þjóðfélaginu. Í samræmi við það náðu aðildarsamtök ASÍ og Samtaka atvinnulífsins samkomulagi um hækkun lægstu launa um 18 þúsund krónur á mánuði. Enginn þurfi að fara í grafgötur með að fjöldi fólks í hópi öryrkja og aldraðra séu meðal þeirra sem lægstar hafi tekjurnar. Það skjóti því skökku við að bætur lífeyrisþega eigi aðeins að hækka um fjögur prósent, sem jafngildi fjögur til fimm þúsund króna hækkun á lægstu bótum.

Alþýðusambandið, Öryrkjabandalagið og Landssamband eldri borgara krefjast þess að ríkisstjórnin standi við fyrri yfirlýsingar sínar og hækki bætur almannatrygginga til jafns við kjarasamninga. Það þýði að hækka beri bætur þeirra sem sé á lægstu bótunum um 18 þúsund krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×