Innlent

Úraþjófa enn leitað

MYND/Stöð 2

Lögregla leitar enn tveggja manna sem grunaðir eru um að hafa stolið á þriðja tug armbandsúra úr verslun Hermanns Jónssonar úrsmiðar við Ingólfstorg um klukkan fjögur í fyrrinótt. Samanlagt andvirði úranna er um tvær milljónir króna.

Góðar myndir náðust af mönnunum í öryggismyndavél og að sögn Ómars Smára Ármannssonar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er unnið eftir ákveðnum vísbendingum að rannsókn málsins. Finnist mennirnir ekki um helgina muni lögregla að líkindum birta myndir af þeim úr öryggismyndavélinni.

Samkvæmt lýsingu er annar mannanna um 185 sentímetrar á hæð og var hann með hvíta húfu, í svartri úlpu og gallabuxum og svörtum strigaskóm. Hinn var með svarta lambhúshettu, í svörtum jakka með hvítu merki á erminni og í dökkum gallabuxum og svörtum og hvítum skóm.

Þeir sem telja sig geta veitt upplýsingar um ferðir mannanna eru beðnir um að hafa samband við lögreglu í síma 444-1000.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×