Innlent

Hægfara vörubílstjórar mættir á Reykjanesbrautina

Hópur vörubílstjóra ók bílum sínum að Olís við Suðurlandsveg eftir að aðgerðunum við Kringlumýrabraut lauk í dag. Bílunum var ekið á litlum hraða upp eftir svo að miklar tafir hlutust af.

Lögregla kom á vettvang og ræddi við vörubílstjórana en einn þeirra sagði Vísi að samskonar aðgerð væri fyrirhuguð á Reykjanesbraut. Rétt í þessu hringdi vegfarandi inn sem var á leið út á flugvöll. Sagði hann umferðina ganga gríðarlega hægt og hann væri á 5 km hraða þar sem menn keyrðu venjulega á 90.

Inn á milli stoppar síðan öll röðin. Hann sagðist missa af flugi sem hann á nú seinni partinn með þessu áframhaldi.

Næstu skipulögðu hópaðgerðir bílstjóranna verða hins vegar á mánudaginn. Með aðgerðunum vilja þeir láta í ljós óánægju sína með hátt olíuverð og álögur ríkisins á vörubílstjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×