Innlent

Var Ingólfur Arnarson til?

Landnámsskálinn í Aðalstræti sem eignaður hefur verið Ingólfi Arnarsyni.
Landnámsskálinn í Aðalstræti sem eignaður hefur verið Ingólfi Arnarsyni.

Voru Ingólfur Arnarson og hans fólk yfirleitt til? er meðal spurninga sem Helgi Þorláksson sagnfræðingur hyggst varpa fram og ræða í fyrirlestri sínum um Reykvíkinga á 9. og 10. öld sem haldinn verður á landnámssýningunni í Aðalstræti nk. þriðjudag sem hluti af fyrirlestraröð er senn lýkur um fornleifar í Reykjavík og lífið á landnámsöld. „Það er ósköp lítið vitað um Ingólf annað en nafnið og það sem Íslendingabók segir um hann. Þar segir að hann hafi verið fyrstur landnámsmanna til að koma til Íslands frá Noregi en við höfum vitneskju um að fólk hafi verið á ferð í Reykjavík fyrir 871 þótt við viljum ekki tortryggja Ara [fróða Þorgilsson] um allt, sumt getur verið rétt hjá honum og átt sér samsvörun," segir Helgi.

Hann segir þetta þó ekki segja okkur ýkjamikið um þennan fyrsta landnema í Reykjavík sem kallaður er Ingólfur, hugmynd Helga sé að fjalla almennt um það í fyrirlestri sínum hvernig afstaða til heimilda hefur breyst, hvernig hugmyndir um landnemana hafa breyst og hvað það sé núna sem við höfum helst að styðjast við um líf og kjör fólks í Reykjavík á 9. og 10. öld.

„Á hinni eiginlegu landnámssýningu þar sem skáli frá 10. öld er aðalatriði og fjallað er um landnámið koma Ingólfur og Hallveig [Fróðadóttir] ekkert við sögu fyrr en við útganginn þar sem þau eru nefnd lítillega. Það er því kannski nokkurt nýnæmi hvernig staðið er að þessu. Ritheimildirnar eru ekki látnar ráða ferðinni með sama hætti og áður heldur á nýjan hátt. Það er það sem ég ætla að útskýra í fyrirlestrinum," segir Helgi að skilnaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×