Innlent

Árni ekki vanhæfur heldur Kjartan Þór

Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ. MYND/GVA

Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ og stjórnarmaður í Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar, er að mati Ríkisendurskoðunar ekki vanhæfur í sölu Þróunarfélagsins á eignum til eignarhaldsfélagsins Keilis þrátt fyrir að vera stjórnarformaður Keilis.

Alls voru eignir seldar Keili fyrir 320 milljónir. Fram kemur í nýrri stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á sölu eigna á gamla varnarliðssvæðinu að Árni, sem sati í stjórn Keilis í skjóli eignaraðildar Reykjanesbæjar, hafi átt óverulegan þátt í sölunni og þá hafi hann ekki átt persónulegra hagsmuna að gæta.

Kjartan Eiríksson, framkvæmdastjóri Þróunarfélagsins.MYND/GVA

Ríkisendurskoðun kemst hins vegar að því að Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Þróunarfélagsins, hafi verið verið vanhæfur til þess að taka þátt í undirbúningi og ákvörðunum um sölu á eignunum til Keilis, en hann var stjórnarmaður í Keili.

Segir Ríkisendurskoðun að Kjartan hafi tekið virkan þátt í undirbúningi og frágangi á sölu á eignunum til Keilis og hafi samþykkt ásamt stjórarformanni Þróunarfélagsins tilboð fyrirtækisins. Ríkisendurskoðun kemst hins vegar að því að ekki sé hægt að líta svo á að sölusamningur sé ógildur vegna vahæfis Kjartans Þórs.

Árni Mathiesen fjármálaráðherra.MYND/Vilhelm

Ríkisendurskoðun fjallaði einnig um þá um tvær aðrar spurningar um hagsmunatengsl við sölu eigna á varnarliðssvæðinu. Annars vegar að Steinþór Jónsson, bæjarstjórnarmaður í Reykjanesbæ og samflokksmaður Árna Sigfússonar, væri stjórnarformaður BASE sem hefði keypt 22 eignir af Þróunarfélaginu fyrir um 715 milljónir króna. Segir Ríkisendurskoðun að undirbúningur sölunnar og ákvarðanir sem máli skiptu hafi fyrst og fremst verið í höndum framkvæmdastjóra og stjórnarformanns Þróunarfélagsins en Árni Sigfússon hafi átt litla aðild að því.

Hins vegar fjallaði Ríkisendurskoðun um það að bróðir Árna Mathiesen fjármálaráðherra, Þorgils Óttar Mathiesen, sæti í stjórn Keilis og í stjórn Háskólavalla en þessi félög hefðu samanlagt átt milljarða viðskipti við Þróunarfélagið sem ynni í umboði fjármálaráðherra að sölu eignanna. Þá væri einn af fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Reykjanesbæjar, Böðvar Jónsson, einnig aðstoðarmaður fjármálaráðherra.

Ríkisendurskoðun segir um þennan þátt málsins að með skilyrðislausu framsali stjórnvalda á valdi til að ráðstafa eignum á fyrrum varnarsvæðum í hendur Þróunarfélagsins og því að forsætisráðherra fer með forræði á hlut ríkisins í félaginu líti stofnunin svo á að hvorki fjármálaráðherra né aðstoðarmaður hans hafi nauðsynlegt vald eða heimildir til að taka þátt í ákvörðunum Þróunarfélagsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×