Innlent

Vilja að byggingarleyfi fyrir álver verði fellt úr gildi

Náttúruverndarsamtök Íslands hafa sent Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála stjórnsýslukæru þar sem farið er fram á byggingarleyfi vegna álvers í Helguvík verði fellt úr gildi.

Leyfið veittu bæjarstjórnir Garðs og Reykjanesbæjar fyrir skemmstu. Fram kemur í tilkynninngu frá samtökunum að til bráðabirgða verði þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar án tafar þar til málið hefur verið til lykta leitt.

Fram kemur í kærunni að Skipulagsstofnun hafi gert þrenns konar fyrirvara áliti sínu um álver í Helguvík. Í fyrsta lagi varðandi óvissu um orkuöflun, í öðru lagi varðandi orkuflutninga og í þriðja lagi um losunarheimildir fyrir gróðurhúsalofttegundir.

Fyrir þurfi að liggja áður en framkvæmaleyfi sé veitt hvort fyrirtækið fái þá losunarheimild sem það þarf eða hafi sýnt veitanda losunarheimilda fram á hvernig losun gróðurhúsalofttegunda verði mætt. Fram kemur í kæru Náttúruverndarsamtakanna að hvorki liggi fyrir slík heimild né áætlun sem sýni hvernig Norðurál hyggist mæta losun gróðurhúsalofttegunda, t.d. með kaupum á losunarkvótum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×