Innlent

Íslenska sem annað mál

Alþjóðahús.
Alþjóðahús.

Íslensk málnefnd og Alþjóðahús standa fyrir málþingi um íslensku sem annað mál á föstudaginn. Haraldur Bernharðsson, málfræðingur hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, er einn frummælenda á þinginu en hann á enn fremur sæti í Íslenskri málnefnd. „Aðdragandinn að þessu öllu saman er að Íslensk málnefnd vinnur nú að því að móta íslenska málstefnu og gera tillögu að henni til menntamálaráðherra. Þetta er stórt og viðamikið verkefni og hluti vinnunnar er að halda ein 11 málþing nú á vormisseri þar sem fjallað er um ólíkar hliðar íslenskrar málstefnu," útskýrir Haraldur og nefnir ýmis dæmi um yrkisefni málþinganna, s.s. lagalega stöðu íslenskunnar, móðurmálskennslu, stöðu íslenskunnar í vísindum og fræðum auk málþings um stöðu íslenskunnar í fjölmiðlum.

Haraldur segir yfirmarkmið málstefnunnar vera að íslenskan verði notuð á öllum sviðum samfélagsins og ekkert svið þess fyrirfinnist þar sem ekki er hægt að nota íslensku. „Um leið og það gerist er staða tungumálsins mun veikari," segir Haraldur og nefnir máli sínu til stuðnings hve mörg tungumál nú er farið að tala á Íslandi, málumhverfið sé orðið mun fjölbreyttara. „Auðvitað gæti sú staða komið upp að þeir sem hingað flytjast og tala ekki íslensku læri ekki íslensku heldur noti ensku. Þetta er staða sem við viljum forðast því þarna verður til hluti samfélagsins sem notar ekki íslensku," segir Haraldur og bætir því við að til að forðast slíkar aðstæður þurfi að styrkja íslenskukennslu til muna og skapa nægt framboð á hæfum kennurum.

Íslenska sem annað mál sérstök fræðigrein

„Það að kenna íslensku sem annað mál er alveg sérstök kennslugrein og í raun sérstök fræðigrein og háskólar á Íslandi hafa ekkert sinnt henni. Þetta þarf að breytast," segir Haraldur og nefnir sem dæmi að í námskrár íslenskra háskóla vanti alveg stuttar námsbrautir þar sem kennd er hagnýt íslenska sem geri erlendum nemendum kleift að fóta sig í íslensku háskólanámi án þess að þeir stefni á að verða beinlínis íslenskufræðingar.

Haraldur spyr hvort íslensk stjórnvöld standi nægilega vel að því að bjóða innflytjendum upp á kennslu í íslensku. „Skapast ekki í raun hálfgerð skólaskylda hérna ef íslenskt samfélag leggur þá skyldu á herðar þeirra, sem sækjast eftir ríkisborgararétti og dvalarleyfi, að þeir tali íslensku? Er þá ekki skylda samfélagsins að veita þessa kennslu endurgjaldslaust?" spyr Haraldur enn fremur og nefnir í framhaldi af því hvort slík kennsla ætti að vera hluti af kjarasamningum.

Viðhorf gagnvart íslensku með hreim

Viðhorf Íslendinga gagnvart íslensku sem töluð er með erlendum hreim er annað viðfangsefni málþingsins og hvort það yrði til hagsbóta fyrir samfélagið að gera íslensku með hreim sýnilegri. „Íslendingar hafa oft ekki þolinmæði til að hlusta á bjagaða íslensku og skipta þá umsvifalaust yfir í ensku. Þetta er auðvitað ekki nógu gott og þarna þarf að auka fjölmenningarlega vitund Íslendinga," segir Haraldur og veltir því upp hvort ráðlegt væri að gera íslensku sem töluð er með hreim sýnilegri, t.d. í ljósvakamiðlum.

Málþingið fer fram í Alþjóðahúsi á Hverfisgötu 18 kl. 14 - 17 á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×