Innlent

Eldur í flugvél í eigu Atlanta í Bangladess

Hátt í 330 manns sluppu ómeidddir þegar eldur kom upp í hreyfli Boeing 747 flugvélar í eigu Atlanta-flugfélagsins við lendingu á Dhaka-flugvelli í Bangladess í gær.

Fram kemur á fréttavefnum Arab News að vélin hafi verið í flugi á vegum Saudi Arabian Airlines sem leigir hana af Atlanta og var hún að koma frá borginni Madinah Sádi-Arabíu. Alls voru 307 farþegar í vélinni og 19 í áhöfn.

Eldur mun hafa komið upp í einum af fjórum hreyflum hennar við lendingu í gærmorgun. Slökkviliðsmenn á flugvellinum brugðust skjótt við og tókst að slökkva eldinn á innan við hálftíma og koma öllum út úr vélinni. Flugmálayfirvöld hafa fyrirskipað rannsókn á slysinu.

Flugvélin sem um ræðir hefur einkennisstafina TF-ARS og er skráð hér á landi. Þegar leitað var eftir upplýsingum um málið hjá Atlanta í morgun fengust þau svör að sá sem gæti veitt upplýsingar um málið væri ekki við fyrr en eftir hádegi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×