Innlent

Þarf að virkja forsendunefnd kjarasamninga

Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ. MYND/Valli

Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ, segir Íslendinga standa frammi fyrir efnahagslegri vá og telur að virkja þurfi forsendunefnd kjarasamninga og samráðsvettvang stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins til þess að ræða þá stöðu sem upp er komin í íslensku efnahagslífi.

Eins og fram kom í fréttum í morgun hækkaði Seðlabankinn stýrivesti um 1,25 prósentustig og eru þeir nú 15 prósent. „Ég verð að viðurkenna að það kom okkur í opna skjöldu að þeir skyldu hækka vextina svo mikið," segir Gylfi en bendir á að sé ákvörðunin sett í samhengi við atburðarás undanfarinna daga sé sú hún skiljanlegri.

Gylfi bendir á að við lækkun krónunnar í síðustu viku hafi fyrirtækin í landinu verið ótrúlega snögg að hækka verðið. Bendir hann á að olíufélögin hafi hækkað verð á eldsneyti og þá hafi forsvarsmenn matvöruverslana, nú síðast í morgun, boðað allt að 20 prósenta hækkun á matvöru. „Það hefur blásið lífi í verðbólguvæntingar og þegar við bætist að ríkisstjórnin hélt sérstakan blaðamannafund í síðustu viku til þess að upplýsa að ekkert væri hægt að gera þá verður þetta skiljanlegra," segir Gylfi og bendir á að meginhlutverk Seðlabankans sé að vinna gegn verðbólgu.

Hann segir ASÍ hafa áhyggjur af því að 15 prósenta stýrivextir geti gengið í íslensku samfélagið. „Þetta hefur styrkt krónuna en langtímaáhrifin gætu orðið þau að setja klossbremsu á atvinnulífið og það er verulega hætta á að það bresti á samdráttur og miklar uppsagnir í atvinnulífinu," segir Gylfi.

Vill svör um það hver hafi staðið á bak við gjaldeyrisviðskipti

Hann segir enn fremur brýnt að fá svar við því hverjir hafi staðið á bak við viðskipti á gjaldeyrismarkaði í síðustu viku. Fullyrt sé að það séu bankarnir án þess að það hafi fengist staðfest en ASÍ geti ekki sætt sig við að aðilar á fjármálamarkaði séu að taka skammtímastöðu gagnvart krónunni til þess að bæta eigin stöðu. „Við munum ekki sætta okkur við að byrðarnar lendi allar á launafólki," segir Gylfi.

Þá segir Gylfi ljóst að virkja þurfi forsendunefnd kjarasamninga og sömuleiðis að kalla saman sameiginlegan vettvang ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins sem stofnaður hafi verið í fyrrasumar. Að þeim vettvangi eiga bæði Samtök atvinnulífsins og samtök launþega í almenna og opinbera geiranum aðild. „Við stöndum frammi fyrir efnahagslegri vá og við verðum að skoða hvernig stjórnvöld geta greitt úr þessari stöðu og til þess þarf samráð," segir Gylfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×