Erlent

Fékk fimm ára fangelsi og rafstuð

Kínverjar eru gestgjafar á Ólympíuleikunum í ár. Mynd/ AFP.
Kínverjar eru gestgjafar á Ólympíuleikunum í ár. Mynd/ AFP.
Kínverskur mótmælandi var í gær dæmdur í fimm ára fangelsi og pyntaður með rafstuði.

Yang Chunlin hefur safnað yfir tíu þúsund undirskriftum við opið bréf með yfirskriftinni "Við viljum mannréttindi en ekki Ólympíuleikana". Flestar undirskriftirnar eru frá bændum sem krefjast bóta fyrir jarðir sem kínversk stjórnvöld hafa tekið af þeim.

Yang, sem er fyrrverandi verkamaður, var dæmdur fyrir brot gegn valdstjórninni, en það ákæruefni nota stjórnvöld í Kína oft gegn mótmælendum.

Fjölskylda Yangs reyndi að ná tali af honum þegar honum var fylgt úr réttarsalnum en lögreglan felldi þá son hans niður í jörðina, að sögn lögfræðings hans. Þegar Yang reyndi að koma syni sínum til hjálpar var honum gefið rafstuð.

Kínversk stjórnvöld reyna nú hvað þau geta til að hafa hemil á mótmælendum sem gætu varpað skugga á Ólympíuleikana sem hefjast í Peking þann 8. ágúst næstkomandi.

Talið er að stjórnvöld í landinu vilji nota Ólympíuleikana til að sýna fram á hversu nútímalegt og stöðugt ríkið er. Engu að síður eru Ólympíuleikarnir þetta árið að verða mjög pólitískir. Meðal annars settu mótmæli vegna ástandsins í Tíbet mikinn svip á athöfnina þegar Ólympíueldurinn var tendraður í hinni fornu grísku borg, Ólympíu í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×