Erlent

Segist hafa myrt í sjálfsvörn

Það var fyrir algjöra tilviljun að 46 ára gamall maður stakk fyrrverandi eiginkonu sína og tengdapabba í Hørsholm í Danmörku í gær. Og morðið var gert í sjálfsvörn.

Þannig hljóðaði í það minnsta skýring mannsins þegar hann var yfirheyrður í Helsingør í dag, en maðurinn hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 17. apríl næstkomandi, samkvæmt heimildum Ritzau fréttastofunnar.

Parið skildi í janúar og fékk móðirin forræðið yfir þremur börnum þeirra. Lögreglan segir að það kunni að vera ástæða morðanna. Hin myrtu voru stungin að minnsta kosti átta sinnum hvor. Árásarmaðurinn segir að hann hafi fyrst hitt sína fyrrverandi í rútu á leiðinni inn í Hørsholm. Hún hafi þá flúið hann, en þau hafi svo hist aftur síðar um daginn í verslun.

Þar segist maðurinn hafa stungið konuna, en hann segir að það hafi aldrei verið ætlun sín að bana neinum. Maðurinn segist hafa gefið sig að konunni til að ræða við hana um börn þeirra en þá hafi tengdafaðirinn ráðist að honum með hníf og stungið hann.

Lögreglan segir að ekkert bendi til annars en að þau hafi hist af tilviljun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×