Innlent

Lúkasarmálið látið mæta afgangi

Hvarf hundsins Lúkasar vakti mikla athygli síðastlið sumar.
Hvarf hundsins Lúkasar vakti mikla athygli síðastlið sumar.
Lúkasarmálið svokallaða er enn til rannsóknar á hjá Sýslumanninum á Akureyri. Lögmaður Helga Rafns Brynjarssonar, sem varð fyrir aðkasti á Netinu í kjölfarið á því að hann var grunaður um að hafa drepið hundinn Lúkas á Akureyri, lagði fram kæru gegn hundrað manns. Fulltrúi sýslumanns á Akureyri segir að málið sé ekki í forgangi . Að stórum hluta er um að ræða ærumeiðingar sem ekkert erindi eiga inn á borð til sýslumanns að hans sögn. Lögmaður Helga sagðist í samtali við Vísi vera undrandi á því hve langan tíma málið hafi tekið.

„Við erum að sortera hvað af þessu á erindi til okkar. Stór hluti af þessu eru bara ærumeiðingar," segir Eyþór Þorbergsson, lögfræðingur hjá Sýslumanninum á Akureyri. Hann er ómyrkur í máli gagnvart lögfræðingi Helga Rafns og segir „fáránlegt að lögmaður skuli kæra ærumeiðingar til lögreglu. Ég hélt að lögfræðingar vissu að það er ekki hægt að kæra ærumeiðingar til lögreglu." Eyþór segir þó að sumt af því sem kært var fyrir megi flokka sem hótanir eða að hægt sé að skoða þær sem slíkar.

„Þá er spurning um hvernig þær eru fram settar," segir Eyþór.

„Þetta er ekki eitthvað forgangsmál hér hjá okkur," segir Eyþór. Hann bendir á að fjórir starfi hjá sýslumanninum við rannsóknir mála og því sé nóg annað að gera. „Við látum þetta mæta afgangi og leggjum meiri áherslu á að rannsaka líkamsmeiðingar, þjófnaði og fíkniefnamisferli," segir Eyþór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×