Innlent

Eitthvað hefur brostið í starfsemi KEA

Eitthvað hefur brostið í starfsemi KEA og helstu ráðamenn eru bæði sjálflægir og einangraðir. Þetta segir fyrrverandi stjórnarformaður félagsins.

Benedikt Sigurðarson hefur setið í stjórn KEA í mörg ár og var síðast formaður félagsins árið 2006. Síðan hefur sigið á ógæfuhliðina að mati hans þrátt fyrir að hagnaður hafi verið tæpur milljarður í fyrra. Á aðalfundi KEA um helgina gekk hann úr stjórninni og fór í leiðinni þungum orðum í ræðu um forystu félagsins, einkum Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóra og Hannes Karlsson, formann stjórnar.

Ræðuna hefur Benedikt birt á heimasíðu sinni, bensi.is og segir þar að KEA hafi misst frumkvæði sitt í samfélagsverkefnum og sinni ekki félagsmönnum sínum nægilega. Ráðamennirnir séu enda bæði sjálflægir og einangraðir.

„Framkvæmdastjóri og stjórnarformaður glutruðu niður tækifærum fyrir KEA í tengslum við söluna á Norðlenska. Með klaufaskap og einhvers konar neikvæðni forystumanna KEA brast traust framleiðenda í Búsæld á samstarfinu við KEA og með því glutruðu okkar menn niður hagsmunum fyrir félagið," segir Benedikt svo dæmi sé tekið úr ræðu hans.

Mörg sæti kjörinna fulltrúa KEA voru auð á aðalfundinum og segir Benedikt að eitthvað hafi brostið í starfsemi félagsins. „Hér hefur forysta félagsins brugðist og ætti að draga af því lærdóma. Stjórn og starfsmenn félagsins þurfa að taka sig á - - - það hefur aldrei komið fyrir að meira en fjórðungur aðalfundarfulltrúa láti aðalfund KEA fram hjá sér fara."

Nokkrar breytingar voru gerðar á samþykktum KEA á fundinum, meðal annars sú að félagið er nú skilgreint sem fjárfestingarfélag. Hannes Karlsson stjórnarformaður segir stöðu KEA og þá ekki síst lausafjárstöðu svo sterka að bankar hafi falast eftir lánum hjá félaginu. Hannes vill ekki svara gagnrýni Benedikts.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×