Innlent

Sérstakar greiðslur til foreldra sem bíða eftir leikskólaplássi

Ólafur Friðrik Magnússon borgarstjóri.
Ólafur Friðrik Magnússon borgarstjóri.

1,6 milljarða króna viðbótarframlagi verður veitt til heimaþjónustu, húsaleigubóta, sérskóla og sérdeilda samkvæmt breytingartillögum sem meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur gerir við þriggja ára áætlun borgarinnar. Breytingatillögurnar voru kynntar á blaðamannafundi í Ráðhúsinu í dag.

Ólafur Friðrik Magnússon borgarstjóri segir að um sé að ræða viðbót til skóla- og velferðarmála sem rík áhersla sé lögð á í málefnasamningi meirihlutans.

Auk þessa mun Reykjavíkurborg taka upp sérstakar greiðslur til þeirra foreldra sem bíða eftir niðurgreiddum leikskólaplássum fyrir börn sín. Borgarstjóri segir að með þessu sé sagt skilið við biðlistastefnuna í leikskólamálum.

Þá er stefnt að því að bjóða upp á fjölbreyttara skólastarf með meira vali fyrir grunnskólanemendur. Gert er ráð fyrir að frístundaheimili verði opin í sumar til reynslu. Þá er stefnt að því að frístundakort verði hækkuð úr 25 þúsund krónum í 40 þúsund krónur í ársbyrjun 2009.

Meirihlutinn í borgarstjórn stefnir jafnframt að því að auka heimaþjónustu við eldri borgara og öryrkja verulega og jafnframt að auka stuðningsþjónustu á þjónustumiðstöðvum. Þá verður húsaleigubótakerfið eflt í samvinnu við ríkið og þjónustuíbúðir verða reistar við Sléttuveg og í Spöng.

Þá segja borgarfulltrúar meirihlutans að á fyrstu 40 starfsdögum sínum hafi nýi meirihlutinn í borgarstjórn komið ótrúlega miklu í verk. Fimmtán af 17 áhersluatriðum málefnasamningsins hafi þegar verið efnd eða séu komin í ákveðið ferli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×