Innlent

Íbúum fjölgar mest á Suðurnesjum milli ára

Íbúum fjölgaði mest á Suðurnesjum af öllum landshlutum í fyrra, eða um rúm átta prósent, samkvæmt samantekt Hagstofunnar. Hins vegar fækkaði íbúum Vestfjarða um rúm tvö prósent á milli áranna 2006 og 2007 og á Austurlandi fækkaði fólki um rúm níu prósent. Hins vegar fjölgaði íbúum höfuðborgarsvæðisins um 2,4 prósent.

Tölur Hagstofunnar leiða enn fremur í ljós að að á tímabilinu 2002-2007 fjölgaði íbúum á Suðurnesjum um 4,3 prósent en um 3,7 prósent á Austurlandi. Íbúum Vestfjarða fækkaði hins vegar að meðaltali um 1,6 prósent undanfarin fimm ár.

Mikil fólksfjölgun síðustu þrjú ár

Bent er á á vef Hagstofunnar að undanfarin þrjú ár hafi fólksfjölgun verið mikil hér á landi. Í byrjun árs voru Íslendingar nærri 313.400 og hafði fjölgað um nærri sex þúsund á milli ára, eða um 1,9 prósent. Hlutfallsleg fólksfjölgun árið 2007 var þó minni en árin tvö þar á undan en árið 2006 var fólksfjölgun hérlendis 2,6 prósent sem er með því mesta sem mælst hefur.

Ef undanskilin eru árin 2005 og 2006 hefur fólksfjölgun á Íslandi ekki verið meiri síðan árið 1961. Á sjötta áratugnum var fólksfjölgunarhlutfallið hérlendis nokkuð hátt, eða 1,6 prósent að meðaltali. Á sjöunda áratugnum lækkaði hlutfallið niður í 1,1 prósent að meðaltali og hélst nokkuð jafnt út öldina og fram til 2004. Árið 2005 jókst fólksfjölgun mjög milli ára og var þá 2,2 prósent. Til samanburðar má nefna að í flestum Evrópuríkjum nær fólksfjölgun ekki einu prósenti á ári. Á tíunda áratug síðustu aldar var fólksfjölgun í Evrópu um 0,2 prósent að jafnaði.

Fólksfjölgun meira rakin til fólksflutninga en áður

Fólksfjölgunina má rekja meira en áður til fólksflutninga til landsins en til náttúrulegrar fjölgunar. Aðfluttir umfram brottflutta hingað til lands námu einu prósenti í fyrra en var 1,8 prósent árið 2006 og 1,3 prósent árið 2005. Fram að því hafði flutningsjöfnuður jafnan verið undir eitt prósent. Náttúruleg fjölgun árið 2007 var 0,8 prósent sem er sama hlutfall og verið hefur undanfarin ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×