Innlent

Leirgos í Gunnuhver

Nú undanfarið hafa orðið nokkrar breytingar á virkni hverasvæðisins við Gunnuhver á Reykjanesi. Gufuvirkni á hverasvæðinu hefur aukist og breiðst nokkuð út auk þess sem suða í leirhverum hefur aukist. Fólk er hvatt til að gæta fyllstu varúðar ef það fer um svæðið.

Í Gunnuhver er búið að vera nokkurt leirgos undanfarna daga. Leirsletturnar ganga gjarnan 2-4 metra í loft upp en öðru hvoru ganga leirspýjurnar hærra í loft upp og nokkuð út frá hvernum.

Það er erfitt að reikna út hversu hátt eða langt hverinn eys leirnum svo það er vissara að halda sig fjarri honum. Það er líka þekkt að þegar leirhverir eru í svona ham þá geta orðið í þeim sprengingar sem þeyta sjóðandi eðju tugi og jafnvel hundruð metra frá hvernum.

Vegurinn að bílastæðinu við Gunnuhver er nú í sundur rétt vestan við bílastæðið við hverasvæðið. Þar hefur hver sem lá fast að veginum stækkað og nær nú inn í veginn.

Einnig hafa nokkur gufuaugu opnast þvert yfir veginn. Af þessu sökum hefur veginum sem liggur að hverasvæðinu verið lokað fyrir bílaumferð.

Rétt er að minna fólk aftur á að ávallt þarf að gæta fyllstu varúðar þegar farið er um hverasvæði!



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×