Innlent

Þjónustufulltrúi útbjó 781 tilhæfulausan reikning

Konan starfaði sem þjónustufulltrúi hjá Tryggingastofnun.
Konan starfaði sem þjónustufulltrúi hjá Tryggingastofnun.

Höfuðpaur fjársvikamálsins í Tryggingastofnun, sem greint var frá í morgun, er 45 ára gömul kona úr Reykjavík. Hún er ákærð fyrir fjársvik í opinberu starfi, sem framin voru á tímabilinu 2. janúar 2002 til 9. júni 2006, á meðan konan starfaði sem þjónustufulltrúi hjá stofnuninni.

Samkvæmt ákæru Ríkislögreglustjóra framdi konan brotin með því að útbúa 781 tilhæfulausa kvittun fyrir útborgunum og blekkja gjaldkera Tryggingastofnunar til að greiða að tilefnislausu úr sjóðum stofnunarinnar á grundvelli þessara reikninga hátt í 76 milljónir króna. Ákæran gegn konunni er í 22 liðum.

Nítján aðrir einstaklingar, karlar og konur á aldrinum 20 til 54 ára, eru ákærðir fyrir hylmingu en til vara peningaþvætti, með því að veita viðtöku á bankareikninga í þeirra vörslu, halda og ráðstafa fé sem var ávinningur af brotum þjónustufulltrúans þrátt fyrir að vera ljóst að um illa fengið fé var að ræða.

Fjórir einstaklingar eru svo ákærðir fyrir hlutdeild í fjársvikum þjónustufulltrúans með því að fá samþykki frá 15 meðákærðu fyrir því að greiðslur sem sviknar voru út úr Tryggingastofnun ríkisins yrðu lagðar inn á bankareikning þeirra.

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 14. mars næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×