Innlent

Össur á orkuráðstefnu í Washington

MYND/Anton Brink

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra tekur þátt í alþjóðlegri ráðstefnu Bandaríkjastjórnar um endurnýjanlega orku sem haldinn er í Washington frá þriðjudegi til fimmtudags í þessari viku.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að ráðherrar, fulltrúar almannasamtaka og fyrirtækja komi þar saman til þess að ræða leiðir og samstarf um að auka hlut endurnýjanlegrar orku í orkubúskap heimsins. Össur mun meðal annars flytja erindi á miðvikudag um rannsóknir og þróun á sviði endurnýjanlegrar orku.

Þá á iðnaðarráðherra tvo fundi með Alexander Karsner, aðstoðarorkumálaráðherra Bandaríkjanna, um jarðhitamál og samstarf eyríkja um hreina orku, en þar á Bandaríkjastjórn hlut að máli vegna Hawai. Þá mun ráðherra einnig ræða orkumál við nokkra öldungadeildarþingmenn, þar á meðal Jeff Bingaman, formann orkumálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings og Barböru Boxer, formann umhverfismálanefndar.

Með ráðherra í för eru Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri, Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, og Einar Karl Haraldsson, aðstoðarmaður ráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×