Innlent

Vilja olíuhreinsistöð til að sporna við fólksflótta

Vestfirðingar eru orðnir langþreyttir á að ekkert sé gert til að hindra byggðaflótta af fjörðunum. Hugmyndin um olíuhreinsunarstöð er því kærkomin þó ekki sé fyrir annað en að hún skapar umræðu um ástandið. Skortur á kvennhylli gæti verið örsok byggðavandans segir varaborgarfulltrúi Samfylkingar.

Þetta kom fram á fundi Græna netsins, félags jafnaðarmanna um umhverfið, náttúruna og framtíðina, sem haldinn var á Kaffi Sólon í morgun. Þar voru kostir og gallar olíuhreinsunarstöðvar á Vestfjörðum ræddir en hugmyndin kom fram fyrir rúmu ári.

Auglýst var eftir hugmyndum um hvernig hægt væri að skapa 85 störf á Vestfjörðum. Margar hugmyndir komu fram og var ein þeirra hugmyndin um olíuhreinsunarstöð þar sem um 500 störf gætu skapast.

Fram kom í máli fundargesta að íbúar Vestfjarða séu orðnir langþreyttir á að bíða eftir því að eitthvað verði að gert til að sporna gegn byggðaflótta af Vestfjörðum.

Dofri Hermannsson, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar sagði hins vegar olíuhreinsunarstöð ekki leysa vanda Vestfjarða sem væri tilkominn vegna skorts á kvenhylli. Hann sagði konur vera í meirihluta þeirra sem flytja af landsbyggðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×