Innlent

Hægt að draga úr eyrnabólgum ungbarna

Útlit er fyrir að hægt verði að draga verulega úr eyrnabólgu hjá ungbörnum með nýrri aðferð við bólusetningu samkvæmt nýrri rannsókn doktorsnema við Læknadeild Háskóla Íslands.

Fjölmörg ungbörn þjást af eyrnabólgu á fyrstu árunum. Eyrnabólga getur oft varað í nokkur ár og í mörgum tilvikum þurfa börn að gangast undir ýmiskonar aðgerðir.

Ungbörn eru venjulega bólusett gegn bakteríusýkingum í handlegg eða læri. Stefanía P. Bjarnason doktorsnemi við læknadeild hefur gert rannsóknir á bakteríusýkingum sem valda meðal annars eyrnabólgu. Hún segir að með öðruvísi aðferð við bólusetningar væri hægt að draga enn frekar úr eyrnabólgutilfellum.

Rannsóknir sýna að bólusetningar ungbarna við eyrnabólgusýkingum virka í um fimmtíu prósent tilvika. Stefanía segir að ef ungbörn verði bólusett við slíkum sýkingum í gegnum slímhúð í nefi væri hægt að gera ráð fyrir að bólusetningin virkaði í um 90 til hundrað prósent tilvika.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×