Innlent

Árni hefur engin áform um að feta áfram í spor Friðriks

Árni Mathiesen fjármálaráðherra sagði engin áform uppi um að hann taki við af Friðriki Sophussyni sem forstjóri Landsvirkjunar. Friðrik mun að öllum líkindum láta af störfum í október og hafa sögusagnir gengið þess efnis að Árni taki við af Friðriki.

Árni var gestur í hádegisviðtali Stöðvar 2 hjá Sindra Sindrasyni og þar sagði hann engin áform uppi um þetta. Hann sagði eðlilegt að menn veltu þessu fyrir sér í ljósi þess að Friðrik hafi einnig verið fjármálaráðherra áður en hann fór til Landsvirkjunar.

„Það eru engar svona áætlanir uppi og ég hef engin áform um að skipta um starfsvettvang," sagði Árni í viðtalinu. Þegar hann var spurður hvort hann hefði áhuga á starfinu sagði hann: „Ekki á næstunni að minnsta kosti."

Árni var einnig meðal annars spurður út í það hvort til standi að einkavæða Íbúðalánasjóð. Hann sagði svo ekki vera en að breytingar á sjóðnum hafi verið í umræðunni. Hann minntist á hugmyndir um að gera bankann að heildsölubanka og sagði skipta máli að hafa virka samkeppni hér á landi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×