Innlent

Segir orkumálafrumvarp minna á Sovétríkin

MYND/GVA

Þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir nýtt orkumálafrumvarp iðnaðarráðherra miðstýringar- og ríkisvæðingarfrumvarp og minna á Sovétríkin. Iðnaðarráðherra sakaði hann um líkja sér við Pútín Rússlandsforseta.

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi í dag. Markmið þess er að setja reglur um eignarhald auðlinda í opinberri eigu og skýra mörk samkeppnis- og sérleyfisþátta í starfsemi orkufyrirtækja. Það er gert til þess að tryggja að öll mikilverðustu vatns- og jarðhitaréttindi sem nú eru í eigu ríkis eða sveitarfélaga, beint eða óbeint, haldist áfram í eigu þessara aðila. Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir að í þeim tilvikum þar sem starfsemi dreififyrirtækja og hitaveitna byggist á sérleyfum verði eignarhlutur opinberra aðila að minnsta kosti 2/3.

Össur sagði á þingi í dag að með frumvarpinu væri verið að leggja til að eignarhald auðlindanna yrði eins og það væri í dag, í opinberri eigu, og þannig búið um hnúatana að möguleikar orkufyrirtækjanna til þess að nýta auðlindir sínar á ábyrgan hátt væru á engan hátt skertar.

Pútín er með ríkisvædda orku

Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði hér á ferðinni mikið miðstýringar- og ríkisvæðingarfrumvarp þar sem gert væri ráð fyrir að ríkið ætti allar auðlindir. Það minnti dálítið á Sovétríkin. Spurði hann ráðherra hvers vegna nýting auðlindanna væri betur komin í höndum ríkisins en einkaaðila og hvað ráðherra óttaðist ef einkaaðilar eignuðust orkuauðlindirnar.

„Er það sama og Pútín er að beita Vestur-Evrópu, að hóta að skrúfa fyrir gasið. Þá vil ég minna á það að Pútín er með ríkisvædda orku og þess vegna getur hann hótað og beitt því pólitískt," sagði Pétur og sagði að slíkt gæti aldrei gerst ef auðlindir væru í eigu einkaaðila. Sagði hann allt eins hægt að opna ríkisrekna matvöruverslun og bensínstöðvar.

Enginn formanna stjórnmálaflokkanna vill einkavæða auðlindir

Össur Skarphéðinsson sagði hér um að ræða gæði sem væru eign þjóðarinnar og þorri hennar væri hlynntur þessu fyrirkomulagi. Það væri misskilningur að um ríkisvæðingu væri að ræða en Pétur hefði líkt honum við Pútín Rússlandsforseta.

Þeir sem væru handhafar orkuauðlindanna gætu leyft afnot af þeim tímabundið samkvæmt frumvarpinu, þannig að allir Íslendingar ættu að fá réttinn til þess að nýta auðlindirnar. Þá vakti hann athygli á því að hver einasti formaður stjórnmálaflokks á Íslandi hefði lýst því yfir að ekki ætti að einkavæða auðlindirnar.

Fyrsta umræða um frumvarpið er enn í gangi og búast má við að hún haldi eitthvað áfram því enn eru fimm manns á mælendaskrá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×