Innlent

Ekkert gert til að bæta merkingar við afleggjara

Vegagerðin hefur ekkert gert til að bæta merkingar og hjáleiðir við vegamót Grindavíkur- og Vogavega við Reykjanesbrautina þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar lögreglunnar á Suðurnesjum. Þar verða langflest slys og óhöpp á Reykjanesbrautinni allri.

Síðast í gærkvöldi varð þar umferðarslys þar sem annar ökumaðurinn slasaðist alvarlega og hinn minna. Slysið olli miklum umferðartöfum. Af 29 óhöppum sem orðið hafa á Reykjanesbraut frá áramótum urðu fimm við Grindavíkurafleggjarann og 11 við Vogaafleggjarann.

Að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum hefur Vegagerðinni margoft verið bent á nauðsyn úrbóta og sömuleiðis hefur Umferðarstofu ítrekað verið greint frá málinu en án árangurs.

Verktakinn, sem var að vinna verkið, varð gjaldþrota og er Vegagerðin að vinna að nýju útboði og telur lögreglan að Vegagerðin beri því ábyrgð á mannvirkjunum.

Auk þerra óhappa og slysa, sem tilkynnt eru til lögreglu, hafa þonokkur óhöpp til viðbótar orðið á þessum slóðum, þar af eitt við Vogaafleggjarann í morgun þegar bíll snarsnerist og fór öfugumegin út af. Svo vel vildi til að enginn bíll kom á móti í þeirri andrá þannig að ekki varð slys.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×