Innlent

Vill ræða Breiðavíkurskýrslu í borgarráði

MYND/Pjetur

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn, hefur óskað eftir því að Breiðavíkurskýrslan svokallaða verði tekin til umfjöllunar á fundi borgarráðs á morgun.

Þar vill Dagur að gefið verið yfirlit yfir þau atriði í skýrslunni sem snúa að barnaverndarnefnd Reykjavíkur og Reykjavíkurborg. Bendir hann á að fram komi í niðurstöðum skýrslunnar að það kunni að hafa leikið vafi á því að forsendur fyrir ákvörðunum barnaverndarnefndar Reykjavíkur hafi stuðst við fullnægjandi lagagrundvöll, að minnsta kosti á hluta þess tímabils sem athugunin nær til.

Einkum geti þetta átt við þegar börn hafi verið vistuð vegna fátæktar eða annarra heimilisaðstæðna fremur en vegna háttsemi eða hegðunar barnsins sjálfs. Þá segi einnig að vafi leiki á því að málsmeðferð barnaverndarnefndar Reykjavíkur á árunum 1952-66 hafi verið í samræmi við skyldur hennar.

Þá segir borgarfulltrúinn í rökstuðningi sínum fyrir beiðninni að eðlilegt sé að borgarráð kynni sér þessar niðurstöður og aðrar, s.s. fjölda Reykvíkinga í hópi þeirra sem vistaðir voru í Breiðavík, almenna lærdóma fyrir gildandi framkvæmd og eftirlit á sviði barnaverndarmála.

Þá sé brýnt að svara því hvort kanna þurfi hvort borgin sé skaðabótaskyld í málinu eða þurfi að biðjast afsökunar. „Þá verður ekki hjá því vikist að borgarráð taki afstöðu til frekari athugana á málefnum einstaklinga sem vistaðir voru í Breiðavík eða skoðun á öðrum sambærilegum stofnunum þar sem reykvísk börn hafa verið vistuð undanfarin ár og áratugi," segir Dagur B. Eggertsson enn fremur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×