Innlent

Sextíu prósentum ungmenna boðin fíkniefni

Um sextíu prósentum ungmenna á aldrinum 18-20 ára, sem tóku þátt í könnun á vegum Ríkislögreglustjóra, hefur verið boðin fíkniefni. Það er álíka hátt hlutfall og árið 2004 þegar sams konar könnun var gerð.

Það var Rannsóknarsetur í barna- og fjölskylduvernd við Háskóla Íslands sem vann könnunina en þar var forvitnast um viðhorf ungmenna til forvarnastarfs lögreglu og aðgengi að fíkniefnum.

Mikill meirihluti jákvæður gagnvart lögreglu

Um þrír af hverjum fjórum sem svöruðu könnuninni höfðu fengið einhverja fræðslu hjá lögreglu en það er nokkuð lægra hlutfall en árið 2004 þegar um 87 prósent svarenda höfðu fengið einhverja fræðslu hjá lögreglu. Flestir þeirra sem fengu fræðslu, eða um 73 prósent, sögðust hafa fengið fræðslu um umferðarreglurnar, 50 prósent um skaðsemi fíkniefna, 39 prósent um skaðsemi áfengis og fjórðungur um lögbrot, fórnarlömb og afleiðingar afbrota. 

Yfir sjötíu prósent ungmenna sögðust mjög ánægð eða frekar ánægð með fræðslu lögreglu en níu prósent voru frekar óánægð eða mjög óánægð. Sjötíu prósent sögðust jafnframt vera mjög eða frekar ánægð gagnvart lögreglunni en 10 prósent frekar eða mjög neikvæði.

Rúmur þriðjungur veit vel hvernig á að nálgast fíkniefni

Sem fyrr sagði hafði 60 prósentum svarenda verið boðin fíkniefni en í könnun árið 2004 var hlutfallið 62 prósent. Af þeim sem sögðust hafa verið boðin fíkniefni sögðust nærri tveir af hverjum þremur það hafa verið í partíi, um 41 prósent erlendis, 40 prósent í miðbænum, 39 prósent á skemmtistað, 30 prósent í framhaldsskóla og svipað hlutfall á á útihátíð.

Þá sögðust um 38 prósent svarenda þekkja mjög eða frekar vel til þess hvernig nálgast mætti fíkniefni eins og hass, amfetamín, kókaín og e-töflur hér á landi en 55 prósent þekktu það frekar eða mjög illa.

Rannsóknin byggðist á svörum 811 ungmenna. Tekið var 1200 manna úrtak úr þjóðskrá meðal fólks á aldrinum 18-20 ára og er svarhlutfall 68 prósent eftir því sem fram kemur á vef lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×