Innlent

Snjóflóð lokar veginum í Súgandafirði

Frá Súgandafirði. Snjórinn þar er töluvert meiri á þessum tíma en myndin sýnir.
Frá Súgandafirði. Snjórinn þar er töluvert meiri á þessum tíma en myndin sýnir.

Snjóflóð lokar veginum í Súgandafirði, eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá Vegagerðinni. Hálkublettir eru á Hellisheiði, á Sandskeiði og í Þrengslum en á Suðurlandi eru víða hálkublettir eða jafnvel hálka. Við Faxaflóa er víðast autt með ströndinni en hálkublettir inn til landsins. Hálka er á Holtavörðuheiði og Bröttubrekku en einnig víða á Snæfellsnesi og í Dölum.

Töluverð ofankoma er nú víða á Vestfjörðum. Þæfingsfærð er á milli Bíldudals og Patreksfjarðar og eins á Kleifaheiði og sama er að segja um Steingrímsfjarðarheiði. Þá má reikna með að færð spillist enn frekar á þeim leiðum þar sem þjónustu er lokið.

Á Norðurlandi er einhver hálka eða snjóþekja á flestum leiðum en víða eru él eða jafnvel hríðarveður.

Á Austur- og Suðausturlandi hefur víða snjóað og því er snjóþekja á fjölmörgum leiðum en annarsstaðar hálka eða hálkublettir.

Vegna framkvæmda á Hringvegi 1 í Borgarnesi er umferð beint um hjáleið. Vegfarendur eru beðnir að sýna aðgát og tillitsemi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×