Innlent

Lánum fækkar eftir því sem kjör versna

Smelltu á myndina til þess að stækka.
Smelltu á myndina til þess að stækka.

Þetta er breyttur markaður frá því sem var, það gefur augaleið," segir Jón Grétar Jónsson framkvæmdastjóri fasteignasölunnar Húsakaupa. Lán til fasteignakaupa hjá bönkunum hafa aldrei verið dýrari en nú, en meðaltalsvextir á þeim eru 6,35 prósent.

Þegar bankarnir buðu fyrst upp á lán til íbúðarkaupa voru þeir 4,15 prósent. Grunnvextir á lánakjörum hafa því versnað um 35 prósent en í ofanálag bætist verðbólga sem hefur verið mikil undanfarin ár. Hún mælist nú 6,8 prósent.

Stýrivextir Seðlabanka Íslands hafa verið háir lengi og eru nú 13,75 prósent. Þeir hafa haft áhrif til hækkunar á lán bankanna en Íbúðalánasjóður hefur getað haldið vöxtum í lægri kantinum, vegna ríkisábyrgðar. Þetta hafa ýmsir innan viðskiptalífsins gagnrýnt harðlega. Þannig sagði Lárus Welding, forstjóri Glitnis, í viðtali við Fréttablaðið að Íbúðalánasjóður ynni augljóslega gegn Seðlabankanum sem gerði efnahagsstjórn erfiðari og útilokaði sanngjarna samkeppni á íbúðalánamarkaði. Jón Grétar Jónsson segir viðbúið að miklar breytingar séu í vændum á fasteignamarkaðnum.

Bæði hvað varðar þróun fasteignaverðs og einnig innan fasteignasalastéttarinnar. „Fasteignasölur hafa sprottið upp í góðærinu eins og margt annað. Þær eru ansi margar og það er viðbúið að þeim fækki ef ástandið verður áfram eins og það er."

Um 260 manns starfa við fasteignasölu á landinu, ýmist í fullu starfi eða að hluta. Í febrúar hefur verið gengið frá 297 kaupsamningum sem gerir rúmlega einn samning á hvern starfandi fasteignasala í landinu. Grétar Jónasson, framkvæmdastjóri Félags fasteignasala, segir augljóst að horfur á fasteignamarkaðnum séu að taka breytingum. „Það er nánast búið að loka fyrir lán hjá bönkunum. Því finna allir fyrir, því fólk hefur jafn mikinn hug á því að kaupa húsnæði núna eins og áður," segir Grétar.

Hann segir fasteignasala finna fyrir miklum áhuga hjá kaupendum. „Stjórnvöld hafa kynnt breytingar, meðal annars afnám stimpilgjalds við kaup á fyrstu íbúð, sem geta skipt miklu máli fyrir stóran hóp. Vonandi verður þeim hugmyndum hrint í framkvæmd sem fyrst."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×