Innlent

Iðnaðarráðherra leggur fram orkumálafrumvarp

MYND/GVA

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra lagði í dag fram frumvarp sitt um orkumál á Alþingi en nýlega tókst samkomulag á milli stjórnarflokkanna um efni þess.

Fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu að því sé ætlað að setja reglur um eignarhald auðlinda í opinberri eigu og skýra mörk samkeppnis- og sérleyfisþátta í starfsemi orkufyrirtækja. Það er gert til þess að tryggja að öll mikilverðustu vatns- og jarðhitaréttindi sem nú eru í eigu ríkis eða sveitarfélaga, beint eða óbeint, haldist áfram í eigu þessara aðila. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að í þeim tilvikum þar sem starfsemi dreififyrirtækja og hitaveitna byggist á sérleyfum verði eignarhlutur opinberra aðila að minnsta kosti 2/3.

Bent er á að þrír fjórðu af allri frumorkunotkun Íslendinga sé nú mætt með orku frá innlendum, endurnýjanlegum orkulindum en samkvæmt lögum er heimilt að einskorða leyfi fyrir virkjunum til raforkuvinnslu við endurnýjanlegar orkulindir.

Verðmæti hreinna orkugjafa á eftir að aukast

Enn fremur er bent á að ljóst sé að verðmæti og mikilvægi hreinna orkugjafa sé stöðugt að aukast, ekki síst með tilliti til mikilvægis þeirra til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum. „Þá hafa íslensk stjórnvöld undirgengist að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda en eitt mikilvægasta tækið í því sambandi eru möguleikar Íslendinga til að nýta endurnýjanlegar orkuauðlindir sínar í því skyni. Ljóst er að miklir þjóðhagslegir og samfélagslegir hagsmunir tengjast eignarhaldi og nýtingu orkuauðlinda landsins og því er mikilvægt að þær verði áfram í samfélagslegri eigu," segir í athugasemdunum.

Þar er einnig bent á að unnið sé að gerð Rammaáætlunar um verndun og nýtingu náttúrusvæða þar sem leggja eigi mat á og flokka virkjunarkosti, jafnt vatnsafls og háhita. Á grundvelli þeirrar vinnu verði mörkuð stefna um nýtingarhraða og röð virkjunarkosta í þeim tilgangi að stuðla að sjálfbærri nýtingu auðlindanna. Opinbert eignarhald á auðlindum auðveldi framkvæmd slíkrar stefnumörkunar.

Fyrirtækjaaðskilnaður í stað bókhaldslegs aðskilnaðar

Í frumvarpinu er lagt til að í stað bókhaldslegs aðskilnaðar komi fyrirtækjaaðskilnaður hjá orkufyrirtækjum sem bæði stunda samkeppnisstarfsemi og starfsemi sem háð er sérleyfum. Þetta þýðir að sérleyfis- og samkeppnisþættir skuli reknir hvor í sínu fyrirtæki.

„Er þessi stefna mörkuð til að tryggja jafnan aðgang framleiðenda að flutnings- og dreifikerfum raforku og koma í veg fyrir samkeppnishindranir sem kunna að leiða af því að sérleyfis- og samkeppnisstarfsemi er á sömu hendi. Samkeppniseftirlitið hefur bent á að taka þurfi til umfjöllunar á vettvangi orkufyrirtækja og stjórnvalda að skilja með skýrari hætti milli einkaleyfis- og samkeppnisþátta raforkumarkaðarins, þ.e. flutnings og dreifingar annars vegar og framleiðslu og sölu hins vegar. Að mati Samkeppniseftirlitsins væri í bestu samræmi við markmið samkeppnislaga að skilja að eignarhald samkeppnis- og einkaleyfisþátta, en að lágmarki að skilja þessa starfsemi að í sjálfstæðum félögum," segir enn fremur í athugasemdunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×