Innlent

Þriggja mánaða fangelsi fyrir fíkniefnaakstur

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt karlmann í þriggja mánaða fangelsi fyrir ítrekaðan akstur undir áhrifum fíkniefna og fíkniefnabrot.

Maðurinn var gripinn tvisvar á tveimur dögum í október síðastliðnum fyrir akstur undir áhrifum amfetamíns, annars vegar á Akureyri og hins vegar á leiðinni frá Reykjavík til Akureyrar. Í síðarnefnda skiptið fann lögregla lítilræði af amfetamíni í fórum hans.

Maðurinn játaði brot sín en hann hafði sex sinnum áður hlotið refsingu vegna brota á umferðarlögum, almennum hegningarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Með brotunum rauf hann skilorð og þótti dómnum ekki ástæða til að skilorðsbinda refsinguna nú. Þar sem um þriðja ítrekunarbrot var að ræða var maðurinn einnig sviptur ökurétti ævilangt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×