Innlent

Safna fé til styrktar Færeyingum í nauð

Fimmtán bátar brotnuðu.
Fimmtán bátar brotnuðu.
Opnaður hefur verið söfnunarreikningur í Glitni til stuðning frændum vorum Færeyingum vegna tjóns sem þeir urðu fyrir þegar mikið óveður gekk yfir landið um síðustu mánaðarmót.

Í fréttatilkynningu sem aðstandendur söfnunarinnar hafa sent frá sér segir að í því mikla óveðri sem hafi gengið yfir Færeyjar um mánaðarmótin janúar-febrúar hafi þorpið Skálavík á Sandey orðið fyrir gríðarlegum ágangi sjávar. Brim hafi gengið langt upp á land og brotið niður mannvirki við höfnina, m.a. fiskverkunarhús. Nær allir útróðrarbátar í höfninni hafi sokkið og þeir sem á landi hafi verið hafi brotnað í spón. Samtals hafi 15 af 16 bátum þorpsbúa sokkið og brotnað. Brimvarnargarði hafi skolað að miklu leyti inn í höfnina þannig að hún hafi fyllst af grjóti og orðið ónothæf. Þá hafi kirkjugarður þorpsins orðið fyrir miklum skemmdum.

„Þorpið Skálavík er um 250 manna samfélag sem algjörlega byggir afkomu sína á sjávarútvegi og sjósókn á minni bátum er eina atvinna þorpsbúa. Óhætt er því að segja að allt atvinnulíf sé lamað eftir þetta gríðarlega áfall og þetta litla samfélag þarf nauðsynlega aðstoð til að koma undir sig fótunum á ný. Er það von okkar að íslenska þjóðin sýni bræðraþjóð okkar þann hlýhug að styrkja þá fjárhagslega í erfiðleikum þeirra. Minnumst rausnarlegrar framgöngu Færeyinga er náttúruöflin léku íslensk byggðarlög hart og við þurftum á stuðningi þeirra að halda. Nú er komið að okkur að rétta frændum okkar hjálparhönd," segir í tilkynningu.

Reikningsnúmer söfnunarinnar er 0565-14-607914, kt. 270366-3419. Reikningurinn verður opinn til 14. mars næstkomandi.

Þeir sem standa að fjársöfnuninni til styrktar sjávarþorpinu Skálavík eru Niels J. Erlingsson, Árni Hilmarsson og Fjalar Freyr Einarsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×