Innlent

Nefnd á vegum dómsmálaráðuneytis fer yfir reglur um pókerspil

MYND/Stefán

Dómsmálaráðherra hefur falið nefnd á vegum dómsmálaráðuneytisins að fara nú yfir reglur sem gilda um pókerspil hér á landi. Þetta kom fram í máli hans í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Ellert B. Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, benti á í óundirbúnum fyrirspurnum að ólöglegt væri að hafa fjárhættuspil að atvinnu hér á landi og sömuleiðis að auglýsa og hýsa slíkt. Fram hefði komið í fréttum í síðustu viku að þingmaður hefði tekið þátt í pókerkeppni og vísaði Ellert þar til Birkis Jónssonar, þingmanns Framsóknarflokksins.

Sagði Ellert að Guðni Ágústsson, formaður Framsóknaflokksins, hefði í kjölfarið lýst því yfir að hann teldi ástæðu til að fara yfir lög sem lytu að fjárhættuspilum. Innti hann dómsmálaráðherra eftir því hvað dómsmálayfirvöld hygðust aðhafast í málinu.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra sagðist ekki ætla segja til um það hvað væri löglegt og ólöglegt í þessum efnum. Benti hann á að nefnd á vegum ráðuneytisins undir forystu Páls Hreinssonar hæstaréttardómara væri að endurskoða löggjöf um happdrætti. Að þeirri vinnu kæmu meðal annars hagsmunasamtök og tryggja ætti að íslensk löggjöf samræmdist evrópskri.

Hann hefði falið nefndinni að fara yfir reglur um pókerspil en spilið nyti vaxandi vinsælda og um allan heim væri verið að setja reglur til þess að koma til móts við gífurlegan áhuga á því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×