Innlent

Neyðarástand vegna flóða í Ekvador

Systur ganga með poka á milli sín í flóðum í landinu árið 2002.
Systur ganga með poka á milli sín í flóðum í landinu árið 2002. MYND/AFP

Yfirvöld í Ekvador hafa lýst yfir neyðarástandi í öllu landinu eftir að hellirigningar orsökuðu flóð og aurskriður víða um landið. Að minnsta kosti þrír hafa látist í flóðunum síðasta mánuð og þúsundir flúið heimili sín.

Herinn hefur tekið við neyðaraðgerðum sem fela meðal annars í sér að koma fólki frá flóðasvæðunum og koma samgöngumæðum í nothæft horf. Ákvörðun um að lýsa yfir neyðarástandi í öllu landinu auðveldar aðgang að neyðarsjóðum upp á rúmlega einn og hálfan milljarð.

Rafael Correa forseti sagði fréttamönnum í gær að líf fólks væri í forgangi, en gengið yrði í aðra sjóði ef neyðarsjóðurinn dygði ekki til að koma lífi í eðlilegt horf.

Opinberar tölur segja að meira en 50 þúsund manns hafa orðið fyrir barðinu á flóðunum. Lýst var yfir neyðarástandi í níu héruðum 31. janúar, en áframhaldandi rigningar hafa gengið yfir öll 24 héröð landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×