Innlent

Flutningur fólks úr flugvélunum í Keflavík hafinn

Fólk á leið úr einni af vélum Icelandair í kvöld.
Fólk á leið úr einni af vélum Icelandair í kvöld. MYNd/Bjarni

Starfsmenn Flugmálastjórnarinnar á Keflavíkurflugvelli og lögregla hafa hafið flutning fólks úr þremur flugvélum Icelandair sem hafist hefur við um borð í flugvélunum við flugstöðina síðan þær lentu síðdegis í dag í von um að veður myndi lægja svo tengja mætti landgöngubrýr flugstöðvarinnar.

„Sú von hefur ekki ræst og því var ráðist í að ná fólkinu frá borði með flugvallarstigum og flytja þá í hópferðabifreiðum í húsaskjól í flugstöðinni," að því er segir í tilkynningu frá flugmálastjórn vallarins.

„Slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli lagði til stórar flugvallarslökkvibifreiðar sem mynduðu nokkurt skjól til athafna. Flugvallarverðir og lögreglumenn mynduðu röð niður landgangsstigann og að bifreiðum og aðstoðuðu farþega við að komast í skjól í storminum. Hafa 178 farþegar þegar verið fluttir frá borði úr einni flugvél auk áhafnar og er unnið að losun hinna tveggja."

Veður er enn slæmt á flugvellinum og öllu Ameríkuflugi hefur verið aflýst næsta sólarhringinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×