Innlent

Fólk beðið að halda sig innandyra - Veginum undir Hafnarfjalli lokað

Lögreglan á Höfuðborgarsvæðinu beinir þeim tilmælum til allra að vera ekki á ferli nema brýna nauðsyn beri til. Nú er vindhæð það mikil að varasamt er að vera úti.

Fólk er beðið að draga fyrir glugga sem eru áveðurs og dvelja ekki í herbergjum þar sem gluggar eru áveðurs. Og lögreglan á Suðurnesjum varar fólk við að leggja á Reykjanesbrautina.

Þá er búið að loka þjóðveginum undir Hafnarfjalli.

Samhæfingarstöðin var virkjuð kl. 16.00 í dag vegna óveðursins. Þar eru nú að störfum aðilar frá svæðisstjórn og landsstjórn björgunarsveita, slökkviliði Höfuðborgarsvæðisins, lögreglu Höfuðborgarsvæðisins, fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra auk starfsmanna almannavarnadeildar.

Álag fer stigvaxandi í Stöðinni og aðallega er óskað eftir aðstoð á Höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesi vegna foks og vatnssöfnunar. Um 70 björgunarsveitarmenn í 14 hópum eru úti og sinna margvíslegum verkefnum, ásamt lögreglu, slökkviliði og starfsmönnum Vegagerðarinnar.

 

Veðurstofan hefur lýst yfir viðbúnaðarstigi vegna snjóflóðahættu á sunnanverðum Vestfjörðum en fyrr í dag var lýst viðbúnaðarstigi vegna snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum. Samhæfingarstöðin mun fylgjast náið með framvindunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×