Innlent

Telur olíudóm fordæmisgefandi fyrir önnur skaðabótamál

Dómur Hæstaréttar í máli Reykjavíkurborgar gegn olíufélögunum er fordæmisgefandi varðandi önnur skaðabótamál gegn félögunum. Þetta er mat lögmanns Reykjavíkurborgar.

Hæstiréttur staðfesti í gær niðurstöðu Héraðsdóms Reykavíkur í skaðabótamáli Reykjavíkurborgar gegn olíufélögunum þremur, Skeljungi, Ker og Olís. Ber olíufélögunum að greiða borginni tæpar 73 milljónir í skaðabætur og Strætó bs. tæpar 6 milljónir auk vaxta vegna ólöglegs samráðs.

Félögin höfðu með sér ólöglegt samráð í útboði Reykjavíkurborgar vegna kaupa á olíuvörum fyrir Strætó og Vélamiðstöð Reykjavíkur árið 1996. Félögin viðurkenndu að hafa haft með sér samráð en töldu ekki sýnt að borgin hafi orðið fyrir tjóni vegna þessa.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Reykjavíkurborgar, sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 í morgun að um tímamótadóm væri að ræða. Bendir hann á að í dómi Hæstaréttar er staðfest að samráð félaganna hafi haft í för með sér tjón. Að mati Vilhjálms getur dómurinn því verið fordæmisgefandi í öðrum svipuðum skaðabótamálum en hingað til hafa olíufélögin alltaf neitað að samráðið eitt og sér hafi valdið viðskiptavinum tjóni.

Vestmannaeyjabær hefur einnig höfðað mál á hendur olíufélögunum en krafa bæjarins nemur tæplega 29 milljónum króna. Ekki er ólíklegt, að sögn Vilhjálms, að dómur Hæstaréttar í gær geti haft áhrif á niðurstöður í því máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×