Innlent

Aðstoðarlandlæknir segir meþadon einungis notað við fráhvörfum

Matthías Halldórsson aðstoðarlandlæknir segir að meþadon sé ekki notað sem verkjalyf í fangelsum hér á landi. Það sé hins vegar mikið notað í flestum fangelsum til að fást við fráhvörfseinkenni ef sjúklingur hefur verið í fíkniefnaneyslu.

Í fréttum Stöðvar 2 í gær var greint frá því að fangi sem lést í klefa sínum á Litla-Hrauni laugardaginn 22. september hafi dáið úr meþadoneitrun. Í fyrstu var talið að hann hefði dáið eðlilegum dauðdaga en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi leiddi krufning annað í ljós. Stöð 2 hefur eftir ættingjum mannsins að þeir skilji ekki hvers vegna manninum hafi verið gefið meþadon og segja að hann hafi í mesta lagi átt við áfengisvandamál að stríða.

Matthías segir að Landlæknisembættinu hafi ekki borist sérstök beiðni um að mál fangans verði rannsakað. Hann segir þó líklegt að sú beiðni muni berast og vill því ekki ræða málið efnislega.

„Almennt get ég þó sagt að í fangelsinu eru mjög sterkar verklagsreglur varðandi verkjalyf og önnur sterk lyf. Sterk lyf eru þó að sjálfsögðu notuð í undantekningatilfellum, til dæmis ef fangi er mað krabbamein," segir Matthías.

Matthías segir að heilbrigðisþjónusta við fanga á Íslandi hafi skánað mjög mikið að undanförnu en það vanti afeitrunardeild við fangelsið á Litla-Hrauni. Fangar þar séu mjög oft í neyslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×