Innlent

Ætluðu að smygla umtalsverðu þýfi úr landi

Þýfið sem fannst á Keflavíkurflugvelli
Þýfið sem fannst á Keflavíkurflugvelli MYND/Lögreglan

Fimm karlmenn af erlendu bergi brotnir voru handteknir eftir að lögregla kom upp um umfangsmikið smygl á þýfi úr landi.

Í frétt lögreglunnar kemur fram að rannsóknarlögreglumenn frá svæðisstöðinni í Hafnarfirði hafi farið í húsleit á mánudagskvöld eftir að hafa fengið áreiðanlegar heimildir um grunsamlega menn og vafasamt hátterni þeirra.

Í herbergi í húsinu fundust tveir kassar en í þeim var varningur sem öruggt má telja að sé þýfi. Á sama stað fannst einnig mjög mikið af allskyns verð- og merkimiðum sem var búið að fjarlægja af fatnaði. Tveir karlar deildu herberginu og voru þeir báðir handteknir. Aðspurðir um innihald kassanna voru þeir margsaga en skýringar þeirra þóttu lítt trúverðugar.

Í herberginu var einnig að finna pappíra sem höfðu að geyma upplýsingar um póstsendingu til útlanda. Strax var haft samband við bæði póst- og tollayfirvöld en við eftirgrennslan kom í ljós að tólf sams konar kassar voru á Keflavíkurflugvelli og biðu þess að vera fluttir um borð í flugvél en brottför hennar var morguninn eftir.

Lagt var hald á póstsendinguna en samtals vega kassarnir fjórtán, sem lögreglan fann á þessum tveimur stöðum, vel á annað hundrað kíló. Varningurinn saman stendur af fatnaði og snyrtivörum. Fatnaðurinn er talinn vera úr innbroti í verslun í Hafnarfirði en snyrtivörunum var að öllum líkindum stolið úr verslun í Reykjavík.

Þrír aðrir karlar voru handteknir vegna rannsóknar málsins en þeir, líkt og hinir tveir, eru af erlendu bergi brotnir. Fjórir þessara manna hafa áður komið við sögu hjá lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×