Innlent

Beðið eftir skýrslu starfshóps um uppbyggingu í heilsugæslu

Starfshópur á vegum heilbrigðsráðherra fer nú yfir stöðuna í heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu og hyggst ráðherra bíða eftir skýrslu hans áður en frekari áform um uppbyggingu verða tekin. Þetta sagði Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri - grænna, kvaddi sér hljóðs og sagði ástandið í heilsugæslumálum á höfuðborgarsvæðinu óþolandi. Vísaði hún meðal annars til þess í málinu sínu að um 8300 manns væru án heimilislæknis og þá vantaði 500 milljónir króna til heilsugæslunnar á þessu ári, annars vegar til rekstrar og hins vegar vegna skulda við birgja. Spurði hún ráðherra hvernig hann hygðist bregðast við ástandinu.

Ráðherra sagði það rangt að það vantaði hálfan milljarð í heilsugæsluna en sagði menn hafa farið yfir málefni hennar frá því að hann hefði komið inn í ráðuneytið í fyrra. Hann hefði skipað sérstakan starfshóp undir forystu Guðjóns Magnússonar hjá Evrópudeild Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar til að fara yfir málið. Sá hópur myndi skila skýrslu á vormánuðum.

Guðlaugur Þór sagðist enn fremur hafa rætt við forystumenn innan heilsugæslunnar um framtíðaruppbyggingu og síðast í dag hefði hann rætt við yfirlækna um málið. Benti hann á áform um stækkun læknastöðvar í Árbæ og miðbæ en sagði frekari áform um uppbyggingu bíða þar til starfshópurinn hefði skilað sínum hugmyndum. Ljóst væri að vaxandi verkefni yrði í heilsugæslunni í framtíðinni.

Álfheiður Ingadóttir sagði hins vegar að tölur hennar um 500 milljóna króna skort innan heilsugæslunnar kæmu frá tveimur mönnum innan heilsugæslunnar, öðrum þeirra forstjóranum sjálfum. Sagði Álfheiður afskaplega mikilvægt að taka heildstætt á heilsugæslunni. Að hennar mati væri heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu of stór stofnun og of miðstýrð.

Enn fremur benti hún á að ástandi væri langverst á höfuðborgarsvæðinu og því væri í raun um grófs mismunun að ræða gagnvart íbúum þess svæðis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×