Innlent

Skimun vegna ristilkrabbameins hefst í byrjun næsta árs

MYND/Auðunn

Reiknað er með að skimun á krabbameini í ristli hefjist í upphafi næsta árs. Þetta kom fram í svari Guðlaugs Þórs Þórðarsonar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Álfheiðar Ingadóttur, þingmanns Vinstri - grænna, á Alþingi í dag.

Álfheiður benti á að Alþingi hefði í fyrra samþykkt þingsályktunartillögu um að beina því til stjórnvalda að hefja skimun á krabbameini í ristli. Skimunin hafi átt að hefjast í ár og brýnt væri að ráðast í hana til þess að draga úr dánartíðni af völdum þessarar tegundar krabbameins.

Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra sagði um umfangsmikið verk að ræða og þegar hefði mikil vinna verið lögð í það. Hugmyndir væru uppi um að hefja leit að krabbameini í ristli hjá 60-69 ára af báðum kynjum. Vísaði hann til þess að aðrar þjóðir hefðu margar byrjað á slíkri skimun í afmörkuðum hópum.

Ráðherra sagði málið ekki einfalt og það þyrfti að undirbúa það vel og hann reiknaði með að skimun vegna sjúkdómsins gæti hafist snemma í byrjun næsta árs.

Álfheiður spurði ráðherra einnig um það hvort áform væru uppi um að hefja skimun á blöðruhálskirtilskrabbameini sem væri vaxandi vandamál í hinum vestræna heimi. Ráðherra svaraði því til að skipuleg leit að því tíðkaðist ekki hjá nágrannaþjóðum og væri það vegna skorts á greiningaraðferðum. Mál væru hins vegar í örri þróun og full ástæða væri til að fylgjast vel með henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×