Innlent

Íslenskt félag virkjar í Bosníu og Hersegóvínu

Úr myndasafni.
Úr myndasafni.
Íslenska orkufyrirtækið Iceland Energy Group hyggst byggja og reka tvær vatnsaflsvirkjanir í Bosníu og Hersegóvínu samkvæmt viljayfirlýsingum sem undirrituð var í síðasta mánuði. Það gerðu Bjarni Einarsson, stjórnarformaður Iceland Energy Group, og Rajko Ubiparip, orkumálaráðherra lýðveldisins.

Fram kemur í tilkynningu frá Iceland Energy Group að heildarkostnaður við framkvæmdirnar sé áætlaður um 600 milljónir evra eða um 55 milljarðar íslenskra króna. Um er að ræða 450 og 55 megavatta virkjanir í ánni Drina við landamæri Bosníu og Hersegóvínu og Serbíu.

Til samanburðar má geta þess að heildarraforkukerfi Bosníu og Hersgóvínu er nú um 2000 megavött. Þær virkjanir sem um ræðir munu því stækka raforkukerfi landsins um fjórðung. Til samanburðar má geta þess að Kárahnjúkavirkjun er 690 megavött.

Árni Jensen, forstjóri Iceland Energy Group, segir að um mjög spennandi verkefni sé að ræða. „Það er viðvarandi orkuskortur á öllum Balkanskaganum enda á sér þar nú stað mikil efnahagsleg uppbygging. Á svæðinu eru mikil tækifæri til að nýta sérfræðiþekkingu okkar Íslendinga á virkjun umhverfisvænnar orku. Við horfum líka til þess að á þessu ári opnar útboðsmarkaður á raforku í Evrópu sem gerir framleiðendum á raforku færi á að selja orku hvar sem er í Vestur- og Mið Evrópu."

Gert er ráð fyrir að virkjanirnar verði að 51 prósenti í eigu Iceland Engery Group og 49 prósent verði í sameiginlegri eigu Bosníu og Hersegóvínu og Serbíu. Á næstu sex mánuðum er stefnt að því að ljúka samningum um framkvæmdirnar og reiknað er með að þær hefjist í ársbyrjun 2009.

 

Iceland Energy Group er íslenskt orkufyrirtæki sem hefur það að markmiði að fjárfesta í vatns- og gufuaflsvirkjunum í Suðaustur-Evrópu. Eigendur og stór hópur samstarfsaðila fyrirtækisins búa yfir sérþekkingu á skipulagningu, hönnun, byggingu og rekstri virkjana hér á landi og erlendis. Félagið hefur verið starfrækt í fjögur ár og er með fjölmörg önnur verkefni til skoðunar í Suðaustur-Evrópu eftir því sem segir í tilkynningunni. Félagið er í eigu Bjarna Einarssonar, Árna Jensens og hóps íslenskra fagfjárfesta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×