Innlent

Greinir á um hvort þvingunarúrræði séu í lögum

Reykingar voru leyfðar áfram á nokkrum veitingastöðum í miðbænum í gærkvöld án afskipta lögreglu. Umhverfissvið Reykjvíkurborgar telur ekki mögulegt að beita viðurlögum við því að reykingabannið sé hundsað.

Kráareigendur leyfðu reykingar á nokkrum veitingastöðum miðbæjarins í fyrrakvöld og í gærkvöld í mótmælaskyni vegna óánægju með löggjöfina um reykingabannið. Hvorki lögregla né umhverfissvið Reykjavíkurborgar hefur haft afskipti af reykingum veitingahúsagesta.

Kráareigendur vilja setja upp aðstöðu fyrir reykingamenn, úti eða inni á veitingastöðunum, og segja engin refsiákvæði við því að rjúfa reykingabannið. Svo virðist sem þeir hafi á réttu að standa því umhverfissvið borgarinnar tekur í sama streng.

Þegar lög á veitingahúsum sem heilbrigðisnefndir hafa eftirlit með eru brotin er vísað til laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Heilbrigðisnefndir geta veitt stöðum áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta. Hundsi forsvarsmenn veitingastaða áminningar getur heilbrigðisnefnd stöðvað eða takmarkað starfsemi staða.

Lögfræðingur umhverfissviðs Reykjavíkurborgar, Örn Sigurðsson, telur að það þurfi að vera bein tilvísun í lögum um reykingabann svo hægt sé að beita slíkum þvingunarúrræðum.

Lögfræðingur heilbrigðisráðuneytisins sagði í viðtali hjá Stöð 2 í gær að lögin um reykingabannið væru skýr og hægt væri að beita þvingunarúrræðum sem getið er um í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Umhverfissvið Reykjavíkurborgar hefur óskað eftir frekari leiðbeiningum frá heilbrigðisráðuneytinu um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×