Innlent

Skýrslan um Breiðavíkurdrengina er tilbúin

MYND/HEiða

Skýrslan um Breiðavíkurdrengina sem forsætisráðherra hefur látið vinna er tilbúin. Róbert R. Spanó lagaprófessor segir að skýrslan verði kynnt í þar næstu viku en Róbert er formaður nefndarinnar sem vann skýrsluna.

"Við erum að ganga frá skýrslunni núna, láta lesa próförk og fleira," segir Róbert í samtali við Vísi. "Skýrslan er fleiri hundruð blaðsíður að stærð með fylgiskjölum þannig að þetta er nokkuð tímafrekt verk."

Róbert reiknar með að Geir H. Haarde muni fá skýrsluna í hendur eftir þar næstu helgi. Í framhaldi af því mun nefndin efna til blaðamannafundar þar sem efni skýrslunnar verður kynnt.

Aðspurður um hvort eitthvað sérstakt hefði komið sér á óvart við vinnslu skýrslunnar miðað við umræðuna sem verið hefur um Breiðavíkurdrengina segir Róbert að hann muni svara þeirri spurningu á blaðamannafundinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×