Innlent

Impregilo stefnir ríkinu vegna oftekinna skatta

Gianni Porta, verkefnisstjóri Impregilo á Íslandi.
Gianni Porta, verkefnisstjóri Impregilo á Íslandi. MYND/GVA
Ítalska verktakafyrirtækið Impregilo hefur stefnt fjármálaráðherra, fyrir hönd íslenska ríkisins, vegna oftekinna skatta sem fyrirtækið var látið borgar á árunum 2004 til 2007 í tengslum við gerð Kárahnjúkavirkjunar. Krafa Impregilo hljóðar upp á rúmlega 1,2 milljarða.

Bent er á í tilkynningu frá félaginu að með dómi Hæstaréttar í haust hafi verið viðurkennt að Impregilo væri ekki launagreiðandi portúgalskra starfsmanna á vegum starfsmannaleiganna Select og Nett. Á grundvelli dómsins hafi Impregilo farið fram á endurgreiðslu á þeim sköttum sem félagið var neytt til að inna af hendi vegna starfsmannanna en engin viðbrögð hafi fengist hjá fjármálaráðuneytinu.

Lögmaður Impregilo hefur í þrígang sent ráðuneytinu bréf og óskað eftir endurgreiðlsu. Fyrst með tveimur bréfum í október og síðan ítrekað 20. nóvember. „Fjármálaráðuneytið hefur í svörum sínum sagt málið vera í skoðun. Telur því félagið sig knúið til að stefna fjármálaráðherra, f.h. íslenska ríkisins fyrir dóm, til endurgreiðslu þessarra skatta og til að hluti kröfunnar fyrnist ekki," segir í tilkynningunni.

Þá er bent á að Impregilo hafi alls greitt um 6,5 milljarða króna í staðgreiðslu opinberra gjalda frá árinu 2003 vegna starfsmanna sem unnið hafa við Kárahnjúkavirkjun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×