Innlent

Fíkniefni fundust á heimili Annþórs í Vogunum

Annþór Kristján Karlsson
Annþór Kristján Karlsson

Fíkniefni fundust á heimili Annþórs Kristjáns Karlsson þegar lögregla gerði þar leit í dag.

Annþór sjálfur var handtekinn fyrr um daginn fyrir utan Leifsstöð en handtakan tengist rannsókn á um fimm kílóum af amfetamíni og kókaíni sem reynt var að smygla hingað til lands með hraðsendingu.

Í kjölfarið á handtökunni fór lögregla að heimili Annþórs í Vogum á Vatnsleysuströnd. Samkvæmt heimildum Vísis fannst þar nokkuð magn af efnum sem talin eru vera fíkniefni. Hann er nú í haldi lögreglu og segja heimildir Vísis að líklega verði lögð inn krafa á morgun þess efnis að Annþór verði úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Gangi það eftir verður Annþór fjórði maðurinn til þess að verða hnepptur í gæsluvarðhald vegna þessa umfangsmikla fíkniefnamáls en fyrir sitja bræðurnir Ari og Jóhannes Páll Gunnarssynir og Tómas Kristjánsson í varðhaldi.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×